Nick Cohen skrifar um mál Julians Assange í Guardian og tengir það við fræga og merkilega bók, The Paranoid Style in American Politics eftir Richard Hofstadter.
Bókin var skrifuð stuttu eftir McCarthy tímann og fjallar um vænisýki í stjórnmálum.
Þessi kennd er út um allt í pólitíkinni og sumir gera út á hana. Eins og Cohen bendir á sjáum við hana í Glenn Beck – og við sjáum hana líka í blaða- og bloggskrifum á Íslandi.
Og það er rétt hjá Cohen að vænisýkin er ekki bara á hægri vængnum, hún grasserar líka vinstra megin. Í samsæriskenningaheimi stuðningsmanna Assange er sænska stjórnin komin í bandalag með CIA til að koma honum til Bandaríkjanna. Því er haldið fram – sem er ósatt – að auðveldara verði að framselja hann frá Svíþjóð en Bretlandi. Þegar þau rök þrýtur er gripið til frasa eins og að Svíþjóð sé „Saudi-Arabía femínismans“.
Í þessum heimi eru það ríki eins og Ekvador og Venesúela sem gæta mannréttinda og tjáningarfrelsis, meðan Svíþjóð er skúrkur.