Ég hef nefnt það áður að ég hitti sérfræðing í alþjóðlegum siglingum þegar ég var í Kanada í vor. Ég nefndi við hann opnun Norður-Íshafsins og möguleika á að byggja umskipunarhöfn fyrir íshafssiglingar á Íslandi.
Af hverju í ósköpunum ættu þeir að sigla þangað? spurði maðurinn.
Í sama streng tekur Einar Ólason, doktor í hafísfræðum, í viðtali við Ríkisútvarpið. Hann segir að langt sé í að leiðir opnist og hann geti ekki séð hvernig lega Íslands geti komið sér vel í þessu efni:
„Ef við förum enn þá lengra fram í tímann, þannig að það verði mögulegt að sigla í gegnum rússneska lögsögu þá þarf engu að síður flota af ísbrjótum til að halda leiðinni opinni á veturna. Ég veit ekki hverjir ættu að hafa hag af því nema hugsanlega Kínverjar en þá myndi ég enga að síður setja höfn frekar á Svalbarða heldur en á Íslandi. Af tveimur bjartsýnum hugmyndum sem maður rekst á hérna myndi ég frekar bora eftir olíu á Drekasvæðinu en byggja höfn á Langanesi.“
Hér breytir engu hvað forseti Íslands er að segja, sveitarstjórnarmenn fyrir norðan eða þeir sem halda uppi hugmyndum um Nýja norðrið – því er fyrst og fremst stefnt gegn ESB-aðild, þannig að úr verður einhvers konar blanda af hugarleikfimi og pólitískri áróðurstækni.
Því staðreyndin er sú að þótt ýmisleg auðæfi sé að finna í kringum Norðurskautið, þá á Ísland ekki tilkall til þeirra – og verði eitthvað úr Íshafssiglingum þá er Ísland úrleiðis. Það yrði dýr timasóun fyrir skip að stoppa hér.
Samanburður á leiðinni frá Kína til Evrópu í gegnum Súezskurðinn og um Íshafið meðfram ströndum Rússlands.