Menn eru að pæla í því að Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni um áframhaldandi veru sína eða brotthvarf úr stjórnmálum á næstunni.
Jóhanna er í sérstakri stöðu. Það var eiginlega búið að skrifa hana út úr pólitíkinni fyrir hrun – menn biðu þess einungis að hún settist í helgan stein.
Svo hrundi bankakerfið og þjóðin horfði ofan í spillingardíki – þá var Jóhanna kona augnabliksins, það var í raun snilldarbragð að gera hana að formanni Samfylkingarinnar. Án hennar hefði flokkurinn þurft að gjalda hrunið miklu dýrara verði.
Ef Jóhanna hættir nú gerir hún það í raun á toppnum. Ísland er mært í erlendum fjölmiðlum fyrir efnahagsbata. Jóhanna getur sagt að hún hafi leitt Ísland út úr kreppunni. Í sögubókum verður líklega farið heldur blíðum höndum um hana. Enginn mun geta láð henni fyrir að draga sig í hlé eftir áratugi í stjórnmálum og erfið fjögur ár í forsætisráðuneytinu – sem fyrsta konan sem gegnir því embætti á Íslandi.
Vandinn verður að finna eftirmann hennar. Það er enginn sem skarar fram úr í Samfylkingunni. Einna líklegastur er hinn hógværi velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson, kannski af því engum líkar í raun illa við hann. Þingmenn Samfylkingarinnar eru margir ráðvilltir, sumir sjá fram á að missa þingsæti sín, þeir átta sig ekki á því hvort betra er að halda í Jóhönnu eða láta hana róa.
Ef Jóhanna kýs að halda áfram, sýnir það hvað hún er í raun mikil baráttukona. En það gæti orðið við ramman reip að draga. Það er reyndar alls ekki víst að Samfylkingin bíði það afhroð í kosningum sem útlit var fyrir fyrr á kjörtímabilinu, en komandi kosningavetur á eftir að vera langur og strangur – það er hætt við að baráttan verði óvenju hörð, persónuleg og níðskælin. Mikið af heiftinni mun beinast gegn Jóhönnu – hún mun þurfa sterk bein til að þola það.