Í Guardian birtist leiðari þar sem fjallað er um mál Julians Assange.
Leiðarinn er býsna harðorður í garð Ástralíumannsins, og segir þar að hann rugli vísvitandi öllu saman, kæru frá Svíþjóð vegna kynferðisbrots sem sé eitt mál, og uppljóstrunum WikiLeaks sem séu annað mál. Það séu mælskubrögð að hræra þessu öllu saman.
Blaðið telur engar líkur á að Assange verði framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna þótt hann færi þangað til að standa fyrir máli sínu. Það séu engin merki um að Bandaríkin sækist eftir framsali hans – en ef svo yrði myndi almenningsálitið í Svíþjóð, Bretlandi og víðar um heiminn rísa upp Assange til varnar.
Í staðinn fyrir að fara til Svíþjóðar leitar Assange hælis í Ekvador þar sem málfrelsi er virt að vettugi – í júní var sex útvarpsstöðum og einni sjónvarpsstöð þar lokað vegna gagnrýni á stjórnvöld.
Flækjustig málsins er vissulega nokkuð hátt – og Assange er flinkur að spila á það eins og í ræðunni á svölum ekvadorska sendiráðsins þar sem hann fór líka að tala um Pussy Riot-dóminn. Þetta fellur ágætlega í kramið á netinu þar sem Assange á sína hörðustu stuðningsmenn. Guardian greinir líka frá því að málið sé farið að valda klofningi í röðum Occupy London, þar vilja sumir styðja Assange með áberandi hætti, en aðrir segja að málið sé farið að eitra hreyfinguna.