Csanád Szegedi er ungverskur stjórnmálamaður, Evrópuþingmaður, meðlimur hins öfgahægrisinnaða Jobbik-flokks. Hann var áður í sveitum Ungverska varðliðsins, þeir klæddust fötum og höfðu merki sem minntu á sveitir Ungverja sem myrtu fjölda gyðinga í stríðinu.
Szegedi hefur hatað bókstaflega allt, Evrópusambandið, Slóvaka, Sígauna, en aðallega gyðinga.
Nú er komið í ljós að Szegedi er sjálfur gyðingur, amma hans lifði af Auschwitz, en afi hans var í þrælkunarvinnu.
Það er nokkuð síðan að fór að verða vart við grunsemdir um gyðinglegan uppruna Szegedis, en hann reyndi að nota fé og fortölur til að þagga niður í þeim.
En nú hefur hann semsagt neyðst til að lýsa því yfir að hann sé sannarlega gyðingur – viðbrögð flokksmanna eru á eina bókina lærð.
Þeir ráku hann úr öllum virðingar- og valdastöðum, og loks úr flokknum sjálfum. Nú vilja þeir að hann segi af sér þingmennskunni á Evrópuþinginu.
Ég segi eins og gjarnan var viðkvæði Dags Sigurðarsonar heitins:
Gott á pakkið.