Styrmir Gunnarsson skrifar að Evrópusambandið ásælist auðlindir Íslands og Grænlands.
Raunar er það svo að auðlindir Grænlands eru miklu meira spennandi en auðlindir Íslands – við höfum fisk sem við nýtum upp í topp og orku í fallvötnum og jarðvarma sem erfitt er að nýta nema hérna.
En Grænlendingar hafa olíu, gull, járn – gnægð málma.
Margir hafa verið að vingast við Grænlendinga út af þessu, til dæmis hefur grænlenskum ráðamönnum verið boðið til Washington. Kínverjar eru að baki námavinnslu á Grænlandi. Evrópusambandið hefur komið fremur seint inn í myndina – og það er ekkert sem bendir til að framganga þess verði í formi nýlendustefnu, eins og Styrmir ýjar að.
Grænlendingar munu ekki einir geta unnið verðmæti úr landi sínu eða hafinu í kring, enda eru þeir fámennir. Miðað við umræðuna sem hefur verið hér á Íslandi síðustu daga mætti ætla að betra væri að þeir fyndu sér samstarfsaðila í lýðræðisríkjum Evrópu en til dæmis í einræðisríkinu Kína.
Styrmir er að leggja út af grein í Guardian – í endursögn sinni ætlar Styrmir ESB allt hið versta – þrátt fyrir að engin dæmi séu um að Evrópusambandið leggi undir sig auðlindir þjóða. Stærstu þjóðir innan sambandsins, Bretland, Þýskaland og Frakkland, áttu ljóta sögu í því efni á nýlendutímanum, en honum er lokið fyrir allnokkru. Í nútímasamfélagi er reyndar líklegra að það séu alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru á höttunum eftir auðlindum en þjóðir og þjóðabandalög – Kína hefur þar dálitla sérstöðu vegna mikillar miðstýringar, má jafnvel segja að sjálft Kína hafi einkenni auðhrings.
Grein Guardian fjallar reyndar alls ekki um nýlendustefnu, heldur fremur um hættuna á að umhverfi Grænlands og Norður-Íshafsins spillist vegna vinnslu jarðefnaeldsneytis og málma. Aðilar innan ESB hafa margsinnis lýst yfir áhyggjum af þessu, til dæmis má minna á viðtal við Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, sem birtist í Silfri Egils fyrir nokkrum misserum. Í þessu efni er örugglega betra að treysta á Evrópuþjóðir sem eru framarlega á sviði umhverfismála, en til dæmis Kínverja eða Rússa.