Ólafur Arnarsson setur fram athyglisverða kenningu um hvers vegna Samherji stefni á að aðskilja innlendan og erlendan rekstur fyrirtækisins. Eru þetta viðbrögð við veiðileyfagjaldi ríkisstjórnarinnar?
„Með því að aðskilja íslenskan rekstur – bæði útgerð og vinnslu – frá alþjóðlegum hluta fyrirtækisins segja sumir sem rúsínan hefur heyrt í að Samherji sé mögulega að hylja slóð virðisaukans og tryggja að hann komi alls ekki fram í rekstri fyrirtækisins hér á landi. Þá geti fyrirtækið tekið virðisaukann út erlendis og komist hjá því að sýna hina raunverulegu auðlindarentu hér á landi. Þannig muni Samherji og raunar útgerðin öll sýna fram á mun lægri auðlindarentu hér á landi en efni standi til.
Þeir kaldhæðnustu segja að þessi uppskipting Samherja í íslenskan og alþjóðlegan rekstur sé í raun ekkert annað en aðgerð til að hylja slóð auðlindarentunnar og koma henni úr landi. Þetta séu viðbrögð sjávarútvegsrisans við veiðigjaldalögum ríkisstjórnarinnar.“