Áhugafólk um skipulagsmál hefur í áratugi bent á hversu vond og vitlaus hún er sú stefna að þenja endalaust út byggðina á höfuðborgarsvæðinu.
Í þessu efni hefur varla skipt neinu máli hver er við völd í Reykjavík, alltaf var byggðin þanin út, í Grafarvog, Grafarholt, Norðlingaholt, Úlfarsfell. Hið sama hefur verið uppi á teningnum í Kópavogi og Hafnarfirði.
Nú er staðan sú, eins og fasteignasali bendir á í þessari grein, að húsnæði á jaðrinum selst varla.
Ástæðurnar eru ýmsar, offjárfestingar í húsbyggingum í úthverfum á tíma efnahagsbólunnar, hærra bensínverð – og nýjar kynslóðir sem vilja frekar búa nær miðjunni.
En í miðjunni er skortur á húsnæði – og þar er verðið hátt og komið nærri því sem var fyrir hrun.