Skák var lengi ein af þjóðaríþróttum Íslendinga, en áhugi á henni hefur farið mjög minnkandi. Sú var tíðin að skákskýringar, karlar að færa trékubba við töflu, var mjög vinsælt sjónvarpsefni hér. Kona mín, sem aldrei hefur teflt, segir að hún hafi horft hugfangin á þetta í æsku.
Þetta er ekki sér-íslenskt, skákin hefur alls staðar verið á undanhaldi.
Þegar heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís var haldið í Reykjavík fyrir fjörutíu árum var skákin hvarvetna á forsíðum blaða.
Síðari einvígi héngu enn inni í fréttum, einvígi Karpovs og Kortsnojs 1978 og svo maraþonviðureignir Kasparovs og Karpovs.
Síðan hefur skákin nánast horfið – það var varla nokkur sem tók eftir því þegar Anand sigraði Gelfland í viðureign um heimsmeistaratitilinn í Moskvu í maí.
Guardian segir frá bandaríska kaupsýslumanninum Andrew Poulson sem hefur gert samning við alþjóðaskáksambandið, Fide, um markaðssetningu á heimsmeistarakeppninni í skák. Poulson hefur búið lengi í höfuðvígi skákarinnar, Rússlandi, og ætlar að reyna að koma skákinni aftur á áberandi staði, í fjölmiðla, í sjónvarp – og tryggja henni stuðning stórfyrirtækja.