Ég hef stundum líkt Ólafi Ragnari Grímssyni við pólitískan fimleikamann.
Hæfileiki hans til að taka undarleg stökk er makalaus, alltaf skal hann ná að sveifla sér úr einni rólu í þá næstu, þótt stundum sýnist manni að hann hljóti að detta og lenda í gólfinu. Í þetta sinn nær hann þeim einstaka árangri að skipta að miklu leyti um kjósendahóp. Og hann nær að sveifla sér vel yfir hin mjög svo táknrænu 50 prósent.
Ólafur vann ansi stóran sigur í kosningunum í gær – í upphafi kosningabaráttunnar var hann með þriðjungsfylgi, hann endar með rúmlega helming. Kjörinn forseti hefur ekki verið kosinn með hærra hlutfalli í „alvöru“ kosningum síðan 1968
Helsti keppinautur hans, Þóra Arnórsdóttir, reyndist veikari frambjóðandi en búist var við. Framboð hennar fór í gang með miklum látum strax um páska en eftir það fjaraði smátt og smátt undan því. Það háði framboði Þóru að skilaboðin voru aldrei nógu skýr, mestöll kosningabaráttan fór líkt og í að leita að þeim – það var eins og stuðningsmennirnir hefðu talið nóg að sýna frambjóðandann, þá væri kosningin unnin. Þegar svo reyndist ekki vera átti framboðið engin svör.
Fylgi Þóru er þó nægjanlegt til þess að hún ætti að geta átt ýmsa möguleika í stjórnmálum, ef hún kýs að leggja þau fyrir sig. Það er þó ekki víst að hún hafi áhuga á því. Einhverjir stuðningsmenn hennar hljóta þó að hvetja hana til þess, þegar þeir eru búnir að jafna sig á vonbrigðunum – sem eru æði mikil. Það eru alþingiskosningar eftir innan við tíu mánuði.
Kosningabaráttan var alltof löng, eins og vill verða á Íslandi. Eins og segir var það framboð Þóru sem byrjaði strax um páska með miklum krafti. Að sumu leyti var það til þess að fæla frá aðra frambjóðendur. En afleiðingin var sú að kosningabaráttan varð langdregin og leiðinleg – það er ekki nóg að tala um í forsetakosningum til að það endist í þrjá mánuði.
Þetta gætu svo orðið síðustu forsetakosningarnar í þessum anda. Líklegt verður að telja að í næstu forsetakosningum verði búið að breyta stjórnarskránni þannig að skýrar er kveðið á um hlutverk forsetans. Umræðan um hvort forseti skuli vera pólitískt virkur eða hvort hann eigi að vera sameiningartákn á ekki heima í kosningabaráttu. Sá sem er kjörinn forseti á ekki að ákveða þetta, heldur á þetta að vera partur af því hvernig embættið er skilgreint í stjórnarskrá.
Hinn virki forseti sigraði í gærkvöldi – það er einhvern veginn ekki mikil eftirspurn eftir mennsku sameiningartákni á Íslandi nútímans. Ég hallast samt að því að Ólafur Ragnar muni hafa sig nokkuð hægan á næstunni. Ríkisstjórnin situr út kjörtímabilið, það er nokkuð ljóst. Ef kosningaúrslit verða sæmilega afgerandi næsta vor verður ekki sérstök þörf á Ólafi. ESB-samningarnir eru ekki að klárast í bráð. Dómurinn í Icesavemálinu verður Íslandi hugsanlega í óhag – og þá gæti Ólafur Ragnar farið á stjá. Þá verður líklega pláss fyrir hann aftur í erlendum fjölmiðlum og fréttaveitum.