Ég hef verið að ferðast í Kanada undanfarnar vikur og ég heyri ýmislegt merkilegt, til dæmis er hér mikil umræða um það sem nefnist Dutch disease – þetta er hagfræðilegt hugtak og er notað þegar gjaldmiðill verður of sterkur vegna þess að ein auðlind – í þessu tilfelli olía – verður ráðandi. Aðrir hlutar hagkerfisins líða svo fyrir þetta. Mér sýnist þetta vera nokkuð mikilvægt þegar rætt er um upptöku Kanadadollars á Íslandi.
Hitt er hvernig talað er um Ísland.
Þegar maður fór til útlanda árið eftir hrun var náttúrlega sífellt verið að spyrja mann út í atburðina – hvort ástandið væri ekki beinlínis hroðalegt, sveltandi fólk og svoleiðis.
Ári síðar var eldgosið í Eyjafjallajökli búið að taka yfir – þá höfðu næstum allir heyrt um gosið og sumir höfðu jafnvel verið strandaglópar vegna þeirra. Hrunið var næstum gleymt – eldgosið þótti spennandi og það var yfirleitt talað um það á nokkuð gamansömum nótum.
Nú í ár er annað uppi á teningnum.
Það er sífellt verið að spyrja mann um þetta land sem á undraverðan hátt sigraðist á efnahagshruni, þar sem horfur eru bjartar, meðan mörg önnur lönd eru í tómu tjóni. Þetta er það sem fólk er að sjá í fjölmiðlum erlendis.
Maður reynir að skýra út að þetta sé ekki alveg svona einfalt, að mikil óánægja sé á Íslandi og að ríkisstjórnin sem nú situr sé eiginlega jafn óvinsæl og sú sem ríkti þegar allt hrundi.
En það er eins og fólk skilji það ekki.