Það er að sumu leyti gaman að fylgjast með Facebook, en ég er ekki viss um að það sé að öllu leyti hollt.
Facebook er ávanabindandi – og henni virðist fylgja einhvers konar ávanabindandi hneykslun.
Þannig ganga hneykslunarbylgjurnar reglulega yfir Facebook – í dag vegna greinar sem Guðbergur Bergsson skrifaði hér á Eyjuna.
Ég hélt reyndar að Guðbergur væri löngu hættur að hneyksla – hann vakti reglulega hneyksli með skáldsögum sínum upp úr miðri síðustu öld. Það var á tíma Tómasar Jónssonar og Hermanns og Dídíar.
En nú er aftur kominn fjór jarðvegur fyrir hneykslun – Facebook er eins og opin „þjóðarsál“ allan sólarhringinn.
Í greininni fjallar Guðbergur um mál Egils Gilzenegger Einarssonar – á ansi ósmekklegan hátt, því verður ekki neitað.
En um leið finnst manni eins og Guðbergur hafi veitt þeim sem fóru harðast gegn Agli á sínum tíma einhvers konar alibí. Þeir virtust eiginlega kjaftstopp þegar máli hans var vísað frá – en nú gefst aftur tækifæri til að hefja hneykslunarumræðuna – og draga fram heykvíslarnar – í þetta sinn gegn Guðbergi.