Mér sýnist Svanur Kristjánsson prófessor fara heldur villur vega í túlkun sinni á forsetaembættinu.
Hann segir að Vigdís Finnbogadóttir hafi tekið stærri ákvörðun en Ólafur Ragnar Grímsson nokkurn tíma þegar hún sleppti því að beita synjunarvaldi sínu vegna EES samingsins.
Staðreyndin er sú að synjunarvaldinu hafði aldrei verið beitt – og Vigdís fylgdi þeirri línu þótt hún hafi kannski velt fyrir sér að gera annað. Ég man reyndar ekki betur en líkurnar á að hún neitaði samningnum um samþykki hafi verið taldar hverfandi á þeim tíma, þetta var einfaldlega ekki stíll Vigdísar.
Það má spyrja hversu stór ákvörðun það sé að aðhafast ekki neitt. Vigdís fylgdi einfaldlega þingræðishefðinni.
Sveinn Björnsson myndaði utanþingsstjórn meðan hann var ríkisstjóri, ekki þegar hann var forseti. Þá hafði verið langvinn stjórnarkreppa í landinu. Túlkanir á því hvernig Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn fóru með stjórnarmyndunarumboð eru líka mjög brattar. Þarna fengu formenn stjórnmálaflokkanna mestanpart að ráða, eins og hefur verið venjan á Íslandi. Stjórnarmyndunarumboð á Íslandi gengur einatt hinn venjulega hring, frá hinum stærsta til hins minnsta, stundum hafa verið farnir fleiri hringir, ef það gengur ekki upp getur forsetinn íhugað aðrar leiðir – en það hefur lítt reynt. Gunnar Thoroddsen kom með starfhæfa meirihlutastjórn til Kristjáns veturinn 1980.
Vangaveltur um að forseti geti sett ríkisstjórn af eru athyglisverðar. Jú, það er „tæknilega“ hægt, en ekki er vitað til þess að forseti hafi nokkurn tíma íhugað að grípa til þess úrræðis. Við vitum svosem ekki hvað forsetar eru fantasera heima hjá sér, en slík inngrip forseta væru talin algjörlega fráleit af Alþingi. Mestar líkur eru á að þingið myndi samþykkja vantraust á forsetann ef þetta kæmi upp – það gæti þingið með 3/4 hlutum atkvæða.
Forseti gæti tekið sér þetta vald með ítrustu túlkun á stjórnarsránni, en í henni stendur líka að á Íslandi sitji þingbundin stjórn. Það er meira að segja fyrsta greinin. Það sem þetta sýnir fyrst og fremst er að stjórnarskráin er algjör grautur, full af mótsögnum, þegar kemur að forsetaembættinu – og þar stangast hún líka við hefðirnar sem hafa myndast.