Aðalmálið fyrir þessar forsetakosningar er beiting málskotsréttarins, frambjóðendur þurfa að skýra hvernig og hvort þeir ætla að nota þetta valdatæki forsetans. Það er ljóst að Ólafur Ragnar hefur virkjað það allrækilega – hann talar jafnvel um að synja kvótafrumvörpum samþykkis og setja þau þannig í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í grein sem Þóra Arnórsdóttir skrifaði Morgunblaðið í lok apríl talaði hún nokkuð frjálslega um beitingu málskotsréttarins, nefndi eins og Ólafur Ragnar gerir oft þing sem nýtur lítils trausts, og sagði að forseti ætti að standa með þjóðinni. Hún nefndi sérstaklega að kæmi til greina að beita málskotsréttinum ef stór mál færu í gegnum þingið með litlum meirihluta.
Í bréfi sem Þóra skrifar til stuðningsmanna sinna í gær dregur hún nokkuð í land með þetta, því nú segir hún að forseti eigi aðeins að „taka í taumana ef brýna nauðsyn krefur“.