Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur skrifar merkilega grein í Fréttablaðið og gerir að umfjöllunarefni þá tilhneigingu þjóða að kenna útlendingum um ófarir sínar þegar oft er fremur við freka og valdamikla sérhagsmunahópa heimafyrir að sakast. En margir hafa auðvitað hag af því að spila á andúðina á útlendingum – og þá getur almenningur reynst býsna glámskyggn:
Jón Ormur skrifar:
„Gömul og ný saga Íslands sýnir vel að oftast nær hefur helsta ógnin við velferð þjóðarinnar, að veðurfari slepptu, verið styrkur sértækra innlendra hagsmuna frekar en útlend ásælni. Þessi staðhæfing er auðvitað þvert á gamla söguskoðun sem byggði á þeirri sannfæringu að mest af okkar óláni hafi stafað af yfirgangi útlendinga. Sú skoðun er lífseig þótt sögulegar staðreyndir séu henni yfirleitt andsnúnar. Þetta er svipað með nálægar þjóðir sem flestar hafa líka vaxið upp úr hlutverki fórnarlambsins. Margar þeirra hafa rofið ofríki innlendra hagsmunahópa og heimalinna stjórnmálamanna með því að opna fyrir alþjóðlegt samstarf og samkeppni.“