Stundum mættum við Íslendingar líta aðeins meira í kringum okkur, athuga hvað er að gerast í öðrum löndum.
Það er til dæmis víðar en hér að deilt er um skatt á hótelgistingu.
Þetta er einn af þeim skattstofnum sem stjórnvöld víða renna hýru auga til þegar sneiðist um skatttekjur vegna efnahagsörðugleika. Skattur á hótelgistingu leggst ekki á kjósendur – að minnsta kosti ekki kjósendur í heimalandinu.
Sums staðar hafa borgir farið út í að leggja á gistináttagjald, til dæmis hefur það nýverið verið tekið upp í Köln og Berlín í Þýskalandi og er 5 prósent – en þegar er greiddur virðisaukaskattur af gistingunni.
Í Bandaríkjunum hefur lengi tíðkast að leggja nokkuð háa skatta og gjöld á gistingu – og reyndar bílaleigubíla líka – þeir geta hækkað verðið um allt að 25-30 prósent ef marka má hinn vinsæla vef Tripadvisor.
Í Bretlandi hafa verið deilur um skatta á gistingu. Þegar er lagður 20 prósenta virðisaukaskattur á hana, en í fyrra vildu bæjarráðin í Westminster í London og í Edinborg leggja gjald á gistingu umfram vaskinn. Það mætti miklum mótmælum.