Árlega eru veitt í London verðlaun í ljósmyndakeppni sem nefnist Shit London. Þetta er keppni um að taka sem þunglyndislegar ljósmyndir.
Undirflokkar í keppninni eru Þunglyndislegasta útsýni úr vinnunni, ljótasta byggingin, besta/versta búðarheitið – og besta ljósmyndin.
Ég var að hugsa um þetta þegar ég ók um Reykjavík í gær og sá ótrúlega mörg mótíf sem gætu átt heima í svona keppni. Það væri ekki mikill vandi að koma henni á fót í Reykjavík. Shit Reykjavík.
Ég hugsaði líka að það væri miklu skemmtilegra, sé maður í þannig skapi, að taka myndir af þunglyndislegum hlutum en þeim sem eru fallegir. Fegurðin getur verið svo einhæf.
Hér má sjá sigurvegarana í Shit London frá því í fyrra – margt er verulega þunglyndislegt.
Og hér eru sigurvegararnir þetta árið.
Þetta taldist vera ljótasta bygging í London í Shit London keppninni í fyrra. Höfundur myndarinnar er Louis Thompson. Í myndatexta segir að byggingin, sem nefnist The Colliers Wood Tower og er í Merton-hverfinu, sjúgi í sig ljós, gleði og lífskraft íbúanna í kring. Oft hefur verið lagt til að byggingin verði rifin.