Í gærkvöldi horfði ég á gagnmerka heimildarmynd um Afganistan á norrænni sjónvarpsstöð sem ég hef aðgang að.
Það er í raun stórmerkilegt hversu lítið er fjallað um stríðið í Afganistan, sérstaklega í ljósi þess að Nató er aðili að hernaðinum.
Það er betur og betur að koma í ljós hvílíkt feigðarflan það var að ráðast inn í Afganistan 2001, eftir árásina á tvíburaturnana. Þetta var gert í hefndarskyni, það var látið eins og Talibanar og al Queda væru eitt og hið sama. En Bin Laden forðaði sér burt frá Afganistan, þegar hann var loks drepinn var hann í Pakistan.
Fyrst vakti innrásin vonir meðal Afgana. Þeir flykktust margir heim úr útlegð. Því var heitið að mikið fé yrði lagt í uppbyggingu Afganistan. Mest gufaði það þó upp í spillingu, að völdum settust ættbálkahöfðingjar og herstjórar sem hófu að maka krókinn eins og enginn væri morgundagurinn. Ræktun fíkniefna sem hafði nánast lagst af undir stjórn Talibana hófst á nýju á fullum krafti.
Menn héldu fyrst að Talibanarnir hefðu gefist upp, en þeir létu sig bara hverfa hljóðlega inn í fjöllin og yfir til Pakistan. Þegar ástandið versnaði birtust þeir aftur og hófu hernað gegn innrásarliðinu – smátt og smátt lögðu þeir undir sig meiri landsvæði. Nú eru engir Vesturlandabúar óhultir í Afganistan – landið er meira og minna í rúst. Í myndinni kom fram að það hefðu verið afdrifarík mistök hjá Bandaríkjamönnum – sem þá hlýddu forsögn Rumsfelds varnarmálaráðherra – að semja ekki frið við Talibana á sínum tíma. Innrásarliðið er feikilega óvinsælt, það notar svokallaða Dróna, fjarstýrðar flugvélar til að eyða skotmörkum. Margir óbreyttir borgarar verða fyrir barðinu á þessu – það sem kallast collateral damage.
Gert er ráð fyrir að herirnir verði á bak og burt frá Afganistan 2014. Landið verður skilið eftir í rúst. Árangurinn af herförinni hefur verið verri en enginn. Innrásin var gerð af hefndarhug, og líka til að sýna mátt og megin særðra Bandaríkja eftir 11/9. Það er sagt að engum innrásarher lánist að leggja undir sig Afganistan. Þar hefur nú verið styrjöld meira og minna síðan Sovétríkin réðust þangað inn 1979. Og það er lítil friðarvon – hætt er við að taki langvinn borgarastyrjöld.