Úti á Granda standa nú þrjár stórverslanir sem keppa um hylli neytenda. Allar eru að keppa á sama sviðinu – í ódýrri matvöru, það er síður spurt um gæðin. Samkeppnin er hörð á neðri enda matvöruverslunarinnar – á efri endanum er lítið sem ekkert að gerast.
Nú standa þarna Bónus, Krónan og ný verslun Iceland. Í Bretlandi eru Icelandbúðir sem mestanpart selja gaddfreðinn ruslmat, en á Íslandi virðast þessar búðir vera með aðeins öðru sniði.
Ég hef ekið þarna tvívegis framhjá og sé ekki betur en að stöðugur straumur fólks sé í Iceland.
Markaðssetning búðanna fer þannig fram að teknar eru myndir af Jóhannesi, fyrrum í Bónus, og viðtöl við hann. Hann er andlit búðanna út á við – enda loðir ennþá við hann að hann sé „vinur litla mannsins“.
Það er þó staðfest í DV í dag að í raun er það Jón Ásgeir, sonur hans, sem stýrir þessu fyrirtæki – raunar hefur áður verið bent á tengsl þess við eignarhaldsfélög í Lúxemborg.
Í blaðinu kemur fram að Jón Ásgeir hafi stýrt hlutafjáraukningu Iceland og að hann gefi beinar skipanir um starfsemina – þrátt fyrir að Jóhannes hafi fullyrt að hann kæmi hvergi nærri.