Í Guardian er Ísland nefnt sem eitt af löndunum sem rétt sé að fylgjast með á nýju ári. Það er þar í hópi Ítalíu, Þýskalands, Írans, Bandaríkjanna, Kenýa, Írlands, Ísraels, Kína og Zimbawe.
Í mörgum þessara landa eru kosningar, eins og til dæmis í Ísrael, Þýskalandi og Ítalíu. Óvissa er um úrslit á Ítalíu, líklegt er að Angela Merkel haldi velli í Þýskalandi og eins Netanyahu í Ísrael.
Bandaríkjamenn álíta, samkvæmt skoðanakönnunum, að seinna tímabil Obamas forseta verði betra en hið fyrra. Og á Írlandi er í gangi nokkuð sérstætt plan sem felur í sér að laða til gamla landsins einhverja af hinum mikla fjölda fólks sem er af írskum ættum en býr annars staðar í heiminum.
Í greinarkorninu um Ísland er fjallað um Bjarta framtíð, Besta flokkinn og Jón Gnarr. Hvað sem öllum Kryddsíldum líður er Gnarr ein af þeim sögum sem útlendingum þykja merkilegastar frá Íslandi. Íbúatala Íslands er aðeins 320 þúsund, en þegar róttækar lýðræðisumbætur eru annars vegar er það landið sem horft er til, segir í Guardian.