Mynd í sjónvarpinu um Guðrúnu Bjarnadóttur minnti á gamla tíma þegar helstu framamöguleikar kvenna fólust í því að verða fegurðardrottningar eða flugfreyjur.
Því ekki urðu þær ráðherrar eða dómarar eða forstjórar – og varla læknar eða lögfræðingar heldur.
Málið var að komast í fegurðarsamkeppni eða í flugfreyjuna og giftast ríkum karli.
Það voru reyndar ákveðin vandkvæði við þetta – þau skilyrði voru vissulega sett af karlaveldinu. Fegurðardrottningar máttu ekki hafa eignast börn, og það máttu flugfreyjur ekki heldur.
Þær voru meira að segja látnar hætta störfum ef þær urðu mæður – oft voru það reyndar flugstjórarnir sem börnuðu þær. En þeir voru ekki látnir hætta.
Þetta rifjar upp ýmislegt annað. Fyrir nokkrum árum fjölluðum við í Kiljunni um Sögu hjúkrunar á Íslandi á 20 öld eftir Margréti Guðmundsdóttur. Þar segir margt um kjör kvenna fyrr á árum.
Krafan til hjúkrunarkvenna var lengi sú að þær giftust starfinu – á hjúkrunina var litið sem eins konar köllun. Það var mjög algengt í stéttinni að þær pipruðu. Hjúkrunarkonurnar bjuggu í þröngu húsnæði við spítala, meðan læknar fengu undir sig heila embættisbústaði.
Myndin um Guðrúnu vakti þessar hugrenningar hjá mér – án þess að ég sé að skrifa um hana í sjálfu sér. Hún var ágæt.