Þegar fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan var í Bretlandi varð hann ein af táknmyndum hins illa fjölmiðlaveldis Murdochs. Hann var ritstjóri sorpblaða eins og News of the World og The Sun. Hann er sagður hafa átt þátt í hlerunahneykslinu sem hefur skekið Murdoch-fjölmiðlana í Bretlandi.
En nú er hann kominn til Ameríku og starfar sem þáttastjórnandi á CNN. Hann varð frægur vestan hafs þegar hann var dómari í þáttunum America´s Got Talent.
Það er ekki alltaf sérlega merkileg stöð. Um daginn kom hingað fréttamaður af CNN, Richard Quest, að nafni, hann aflaði frétta með því að rúnta um með Ólafi Ragnari Grímssyni og sjóða saman einhverja vitleysu upp úr því.
En Piers Morgan hefur sýnt óvæntan manndóm síðustu daga, svo mjög að uppi eru kröfur um að reka hann burt frá Bandaríkjunum, 31 þúsund Bandaríkjamenn hafa skrifað undir áskorun þessa efnis.
Morgan hefur tekið harða afstöðu gegn byssubrjálæðinu sem tíðkast vestra.
Ballið byrjaði þegar Morgan tók viðtal við karlmann sem er frammámaður í samtökum byssueigenda. Byssumaðurinn sagði að harðari reglur um sölu skotvopna myndu ekki hafa þau áhrif að fækka dauðsföllum vegna þeirra. Hann hélt áfram og sagði að þar sem byssur væru útbreiddar væri morðtíðni mjög lág.
„Þú ert mjög heimskur maður,“ sagði Morgan.
Hann endaði svo viðtalið með því að segja um viðmælenda sinn að hann væri hættulegur maður sem væri að breiða út hættulega vitleysu.