Framboð Lilju Mósesdóttur var með um tuttugu prósenta fylgi samkvæmt skoðanakönnun í febrúar. Þetta hefði mátt teljast fljúgandi start, en svo hallaði fljótt undan fæti.
Varaformaður flokksins sem hún stofnaði, Samstöðu, lét sig hverfa stuttu eftir stofnun hans. Fleiri hafa tínst burt – til dæmis fólk sem kom til Lilju úr Framsókn. Það er farið aftur í heimahagana.
Síðustu mánuðina hefur verið ljóst að framboðið ætti ekki mikla framtíð fyrir sér. Lilja vildi ekki verða formaður – í staðinn var settur í starfið ungur maður sem virðist ekki ná að fóta sig sérlega vel. Og nú lýsir hún því yfir að hún ætli ekki að bjóða sig fram til þings. Hún er semsagt að hætta í pólitík.
Þannig má segja að hún skilji fylgismenn sína eftir – framtíð þeirra í pólitík virðist afar óráðin. Maður skyldi halda að líklegast væri að þeir sem eftir eru gengju einfaldlega til liðs við Dögun, aðra stjórnmálahreyfingu sem hefur líka lagt mikla áherslu á skuldamál heimilanna. Munurinn er varla svo mikill – Dögun hefur reyndar haft meiri áhuga á stjórnarskrármálum en Lilja og þar er líka harðari andstaða við kvótakerfið. En það geta varla verið frágangsmál.
Benedikt Sigurðarson á Akureyri bloggar um samskipti sín og Lilju. Það kom til tals að hann gengi til liðs við framboð hennar síðastliðin vetur, en það átti ekki að verða. Benedikt skrifar:
„Og þótt Lilja hefði boðið mér til samræðunnar þá kaus hún sjálf að vísa mér á sínar „pólitísku dyr“ fremur en að taka neina efnislega rökræðu – – og engin rökræða virðist hafa farið fram um annað en hennar eigin hugmyndir eða hennar „pólitísku nær-fjölskyldu.“
Nánast um leið og flokkur Lilju fór að reyna að láta líta út eins og þar væri á ferðinni „pólitískt afl“ frekar en „einsmanns-flokkur“ – – þá misstu aðspurðir kjósendur áhugann í skoðanakönnunum.
Um svipað leyti einbeitti hennar fólk sér mest að því að reyna að skíta í hugmyndir og einstaklinga sem vildu freista þess að eiga samstarf við aðra á Alþingi – – og ekki síður að gera lítið úr þreifingum og samræðum fólks sem hafði áhuga á að mynda vettvang með tiltekið umburðarlyndi að leiðarljósi. Þótt Lilja Mósesdóttir hafi flestum eða öllum fremur fengið athygli – – og prívatviðtöl í mörgum fjölmiðlum þá vældi hún og handgengnir henni margendurtekið um að „hún kæmist ekki að í fjölmiðlum“ , , , og hennar flokkur væri ekki tekinn alvarlega.
Nú hefur Lilja endanlega gefist upp á eigin flokki; hún hafði ekki kjark til að takast á við formennskuna og nú hefur hún hlaupið frá því fólki sem hafði náðarsamlegast komist að fótskörinni og „farið með trúarjátninguna“.
Það var að mínu mati óskynsamlegt af Lilju að hlusta einkum á þá sem ráðlögðu henni einangrunarstefnu og sjálfbirging – – með þröngri stefnumótun við flokksstofnun. Vænlegra hefði verið að leita víðtækari „samstöðu“ (svo flokksnafnið yrði ekki strax að öfugmæli) og stíga afgerandi skref til móts við það fólk sem nú hefur gengið undir „regnhlíf“ og stofnað til Dögunar.
Kannski er Lilja einmitt að víkja af vettvangi eigin flokksstofnunar til að gera það mögulegt að það verði til útvíkkun á Dögun – – eða kosningabandalag?
Ekki vil ég spilla slíkum samræðum – – ef menn gengju til þeirra með galopnum huga – – en tæplega sæi ég fyrir mér að Dögunarfólkið muni héðan af henda fyrirliggjandi stefnumótunarvinnu – – til þess eins að kalla til sín það fólk sem nú situr vonsvikið eftir í óstofnuðu þrotabúi fv. flokks Lilju Mósesdóttur.“