Þetta er falleg og dálítið jólaleg mynd sem kemur frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Hún er líklega tekin um eða rétt fyrir aldamótin 1900, hún er semsagt rúmlega hundrað ára gömul. En breytingarnar eru miklar.
Þarna er horft norður Lækjargötu, húsið sem er næst stendur enn, það er á horninu við Skólabrú. Aðrar byggingar á myndinni eru horfnar. Það er söknuður að mörgum þeirra, það sem kom í staðinn var ljótara en ekki síður forgengilegt. Við endann sjást hús við Lækjartorg.
Gamli lækurinn er á hægri hönd með brúm yfir – ljóskerið sem stendur við eina brúna er sérlega fallegt.
Það sem er eiginlega skemmtilegast við myndina er fjallið sem er í bakgrunni – það hefur ekkert breyst heldur er það nákvæmlega eins og við þekkjum það á vetrardögum. Og svona verður það um ókomnar kynslóðir.
Tími fjallanna er dálítið annar en tími okkar fólksins og mannvirkjanna sem við reisum og hreykjum okkur af.