Það er dálítið gaman að spá í hefðir – uppruna þeirra og hversu gamlar þær eru. Oft kemur á óvart hvað þær eru í raun ungar.
Það er til dæmis skötuát á jólum. Þegar ég var að alast upp stundaði nokkuð fámennur hópur skötuát – það var aðallega fólk sem var ættað að vestan.
Nú er þetta útbreiddur siður – og skata á boðstólum á fjölda veitingahúsa og heimila. Í stigagöngum fjölbýlishúsa er deilt um skötufýlu, ég er ennþá með hana í skyrtunni síðan ég fór inn í fiskbúð í dag.
Svo er það laufabrauðið. Þegar ég var strákur var það bundið við fólk að norðan. Í búðum fékkst ekki laufabrauð – ég sá þetta aldrei nema hjá frænku minni sem var úr Húnavatnssýslu. Aðrir ættingjar mínir voru að sunnan og þekktu ekki þennan sið.