Ég skrifaði greinarkorn í fyrradag þar sem ég sagði að ESB væri óseljanleg vara á Íslandi eins og hinn pólitíski veruleiki er – bæði hér heima og í Evrópu.
Ég hygg að sé ekkert ofmælt í þessu sambandi.
Aðeins tveir stjórnmálaflokkar fara í næstu kosningar sem beinlínis eru hlynntir aðild, Samfylkingin og Björt framtíð. Flokkarnir ná í mesta lagi 35 prósenta fylgi sameiginlega – líklega verður það þó nokkuð minna.
Hinir flokkarnir sem fara í kosningar með fyrirheit um að hætta viðræðum – og nokkuð stríðan málflutning þess efnis – munu væntanlega gera eitt af þessu þrennu:
Slíta viðræðunum.
Fresta viðræðunum.
Efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áfrahald viðræðna.
Slík atkvæðagreiðsla yrði ábyggilega mjög ófriðleg, en hún er í raun besti „díllinn“ sem aðildarsinnar geta fengið. Það er alltaf möguleiki að framhald viðræðna verði samþykkt.
En það tjóar ekki mikið þótt Írar, sem eru að taka við forystu í ESB, segist ætla að hraða viðræðunum við Íslendinga. Það er heldur seint í rassinn gripið, nú þegar aðeins fjórir mánuðir eru til alþingiskosninga.