Bandaríkin eru land sem er fullt af mótsögnum.
Það er til dæmis merkilegt að Bandaríkin verja ógurlegum fjárhæðum í varnir gegn hryðjuverkum – öryggiseftirlit ríkisins er beinlínis undirlagt af hryðjuverkaógninni.
Samt deyja afar fáir Bandaríkjamenn eða meiðast af völdum hryðjuverka.
Hins vegar má rekja meira en 32 þúsund dauðsföll á ári til byssueignar eins og kemur fram í töflum sem fylgja þessari grein í The Atlantic.
Það eru meira en tíu sinnum fleiri en fórust í árásinni á Tvíburaturnana.
Og ef við berum þetta saman við Ísland, þá eru Bandaríkjamenn þúsund sinnum fleiri en Íslendingar: Þetta þýðir þá að ef svipað ástandi ríkti á Íslandi væru meira en 30 dauðsföll hér á ári af völdum skotsára.
Í annarri grein í The Atlantic kemur fram að Japanir hafi gert átak í að banna skotvopn. Þar segir að í Japan sé morðtíðnin með skotvopnum svo lág að 2006 hafi aðeins 2 dáið í skotárásum, árið eftir voru það 22 og það var þjóðarhneyksli.
En í Bandaríkjunum hljóta menn að spyrja: Hvernig getur tvítugur strákur, ekki heill á geði, náð sér í byssur til að fremja ódæði eins og í Connecticut í gær?