Um fátt hefur verið meira rætt á Bretlandi að undanförnu en stórfelld skattaundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja.
Sem betur fer virðist þetta ætla að koma í hausinn á þeim sumum. Það lítur út fyrir að viðskipti kaffihúsakeðjunnar Starbucks þurfi að gjalda fyrir þetta, það hafa verið mótmæli við kaffihús Starbucks og jafnvel er gert ráð fyrir því að salan minnki um allt að fjórðung vegna þessa – á móti hefur sala aukist til muna hjá kaffihúsakeðjunni Costa. Starbucks hefur brugðist við með því að lofa að greiða meira í skatt.
Almenningsálitið getur semsagt virkað í svona málum.
En vandinn ristir náttúrlega mjög djúpt. Þetta eru viðskiptahættir sem eru tíðkaðir víða og þykja nánast sjálfsagðir.
Polly Toynbee skrifar í Guardian og segir að tími sé kominn til að beina sjónum að endurskoðendum sem séu hjartað í skattaundanskotum af þessu tagi. Þar nefnir hún sérstaklega alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtækin fjögur: Deloitte, PricewaterhouseCoopers, KPMG og Ernst & Young.
Toynbee vísar ennfremur í umfjöllun Guardian frá því árið 2009. Þar var reynt að útskýra undanskot sem gengu undir nöfnum eins og tvöfaldur Luxemburg og hollensk samloka. Hún nefnir að eitt vandamálið við fréttaflutning af þessu séu að stórfyrirtækin hafi á sínum snærum lögfræðingaher til að lúskra á blaðamönnum sem misstíga sig eitthvað aðeins.
Mótmæli vegna skattaundanskota Starbucks í Bretlandi.