Jón Steinar Gunnlaugsson hefur alla tíð verið flokkspólitískur agent – meðfram lögfræðinni. Hann er ekki einn um það, í lögfræðistéttinni er talsvert af þessum mönnum sem ganga nokkuð eindregið erinda flokka eða valdahópa. Sumir eru meira að segja ansi klárir – eins og Jón.
Baldur Guðlaugsson er í raun annar úr þessum hópi, hann var tekinn úr lögfræðistörfum og gerður að ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu um svipað leyti og Jón var setur í Hæstarétt. Sú ráðning gat aldrei talist vera annað en í hæsta máta flokkspólitísk – rétt eins og ráðning Jóns í réttinn.
Jón Steinar er sjaldan ódeigari í málflutningi sínum en þegar hann þarf að bera blak af þeim sem tilheyra sömu grúppu og hann. Um það vitna ótal greinar sem hann skrifaði í Morgunblaðið áður en hann varð Hæstaréttardómari. Í fjölmiðlastétt er líka alkunna að eftir að Jón varð dómari var hann að hringja í blaða- og fréttamenn til að hafa áhrif á umfjöllun. Nú eftir að hann er hættur sem dómari tekur hann til við að verja menn eins og Baldur og Ólaf Börk Þorvaldsson, samdómara sinn úr Hæstarétti – annan mann sem þangað var skipaður pólitískt.
Reyndar mátti færa rök fyrir ráðningu Jóns í Hæstarétt, hann er fluggáfaður og flinkur lögmaður, en hið sama var ekki hægt að segja um ráðningu Ólafs Barkar. Rökin fyrir henni voru tómt yfirskin.
Nú stígur Jón Steinar fram og skrifar um Baldur Guðlaugsson, hann færir rök fyrir því að dómurinn yfir honum hafi verið rangur. Hæstiréttur var á öðru máli – og reyndar var eitt sem sérstaklega stóð upp úr í réttarhöldunum. Embættismenn sem voru í svipaðri stöðu og Baldur töldu sig ekki geta gert það sem hann gerði.
Gagnvart almenningi horfir þetta frekar einfaldlega við.
Baldur er í hópi embættis- og stjórnmálamanna sem brugðust algjörlega í hruninu. Hann vissi hvað var á seyði, hann notaði ekki þá þekkingu til að verja hag þjóðarinnar sem hann starfaði fyrir, heldur fór hann í bankann og bjargaði sínum eigin peningum. Almenningur í landinu hafði ekki tök á því að gera slíkt hið sama. Hann tapaði peningunum sínum.
Svona horfir þetta við siðferðislega – en kannski segir lagatæknin eitthvað annað. Fjórir af fimm dómurum Hæstaréttar sakfelldu Baldur, og staðfestu dóm Héraðsdóms. Einn var á móti, áðurnefndur Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Jón Steinar telur að dómararnir hafi látið undan þýstingi samfélagsins, hann segist ekki trúa því að þeir hafi dæmt gegn betri vitund, en það er í raun það sem hann er að segja – það er öll trúin sem hann hefur á þeim eftir árin í Hæstarétti.