Einu sinni var staðan þannig hjá krötum að þótti sjálfsagt að Hafnfirðingur væri í efsta sæti í því sem kallaðist Reykjaneskjördæmi.
Því Hafnarfjörður var kratabærinn – kratar voru hvergi sterkari en þar.
Reyndar er það svo að kratar stjórna nú í Hafnarfirði – en þeir gera ekki lengur tilkall til forystu í landsmálapólitíkinni.
Flokkurinn heitir reyndar Samfylking nú, ekki Alþýðuflokkur.
Fulltrúi Hafnarfjarðarkratanna, Lúðvík Geirsson, kemur úr Alþýðubandalaginu – þar eru þau líka upprunnin sem berjast um efsta sætið á listanum í kjördæminu, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.
Lúðvík er ekki í þeirri baráttu, hann lætur sér nægja sæti neðar á listanum.
En forystumenn Hafnarfjarðarkratanna hafa ákveðið að styðja Katrínu – eins og sjá má á grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær.
Í gamla daga voru það reyndar Hafnarfjarðarkratar á borð við Emil Jónsson og Guðmund Í. Guðmundsson sem áttu mikið samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórnum. Nú er það hins vegar Árni Páll sem er miklu líklegri til að taka upp samvinnu við Sjálfstæðismenn – Katrín er handgenginn Jóhönnu Sigurðardóttur sem vill ekki vera með íhaldinu.