fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Kosið vestra á morgun

Egill Helgason
Mánudaginn 5. nóvember 2012 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikið í húfi í kosningunum í Bandaríkjunum á morgun. Sumir segja að það skipti engu máli hvor verði kjörinn, Obama eða Romney, en það er ekki satt.

Við getum til dæmis horft aftur og spurt hvort það hefði ekki breytt ýmsu ef Gore hefði orðið forseti árið 2000 fremur en Bush?

Það verður mikið áfall fyrir Obama og Demókrata ef hann tapar. Þá er hann eins kjörtímabils forseti, það er heldur litið niður á slíka – það tók Carter marga áratugi og þrotlaus ferðalög um heiminn að vinna sig aftur í álit eftir að hann tapaði fyrir Reagan 1980. Þetta gæti líka orðið slæmt fyrir jafnréttisbaráttuna í Bandaríkjunum – viðhorfið yrði að fyrsti blökkumaðurinn sem var kosinn forseti hafi verið misheppnaður.

Romney hefur lengi sóst eftir því að verða forseti. Hann kemur úr flokki sem höfðar langmest til hvítra karlmanna. Fylgi hans meðal þeldökkra og fólks af rómönskum ættum er sáralítið – konur eru einnig líklegri til að kjósa ekki Repúblikana. Ef Romney tapar þurfa þeir að fara vel yfir sín mál, öfgafólk hefur nánast hertekið flokkinn. Fólksfjöldaþróun í Bandaríkjunum vinnur gegn honum; þeim fjölgar sem eru líklegri til að kjósa Demókrata.

Hefði flokkurinn ekki verið í slíku ástandi er hefði verið líklegra að frambjóðandi Repúblikana næði að sigra í kosningunum. Efnahagsástandið er slæmt, atvinnuleysi er mikið, það ríkir ekki mikil bjartsýni í Bandaríkjunum – það er sagt að síðasti forseti sem vann kosningar við slíkar aðstæður sé Franklin D. Roosevelt árið 1936.

Eins og staðan er þykir líklegra að Obama standi uppi sem sigurvegari á þriðjudaginn. Þetta byggir meðal annars á hárnákvæmum skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar í óráðnum ríkjum, þeim sem sveiflast milli Demókrata og Repúblikana.

Ég bendi á mjög fróðlegt samtal sem við Silja Bára Ómarsdóttir og Magnús Sveinn Helgason áttum um kosningarnar í Silfri Egils í gær. Það er aftast í þættinum.

Þess má svo geta að Magnús Geir Eyjólfsson, ritstjóri Eyjunnar, er staddur vestra og flytur fréttir af kosningunum hér á vefnum næstu dagana. Hér má lesa nýjasta pistil hans.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum er ekki einfalt. Kjörmenn eru kosnir í hverju ríki sem síðan kjósa forsetann. Mörg ríki eru örugg öðru hvoru megin, en fylgið sveiflast í öðrum. Nú er talað um að úrslitin ráðist í Ohio. Þar stendur Obama betur að vígi. Bláu ríkin á kortinu eru demókratamegin, í rauðu ríkjunum hafa Repúblikanar meirihluta. Rauðu fletirnir eru vissulega mun stærri en þeir bláu, en þá er þess að gæta að fleira fólk býr í bláu ríkjunum – þar er Kalifornía og New York og hin þéttbýlu ríki á austurströndinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“