Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar um Landakotsskóla eru skelfilegar. Ég skrifaði nokkrum sinnum um þetta mál þegar það kom upp í fyrra – maður hafði heyrt ljótar sögur af þeim Margréti Müller og Séra Georg, en þetta er verra en maður hefði nokkurn tíma. Ég hygg að sé óhætt að fullyrða að þau hafi bæði verið illmenni sem notuðu vald sitt til að níðast á börnum sem síst gátu varið sig.
Kaþólska kirkjan er skipulögð eins og híerarkí. Það eru mjög sterk valdboð ofan frá og niður. Það er ein skýringin á því að barnaníð hefur þrifist þar innan veggja – og að svo lengi tókst að þegja yfir því. Gleymum því ekki að kirkjan á Írlandi, sem eitt sinn gat ráðið því sem hún vildi í samfélaginu, er í molum vegna barnaníðsmála. Írar hafa horfið unnvörpum frá trúnni.
Það er þó eitt sem þarf að árétta.
Sá Landakotsskóli þar sem þau störfuðu var allt önnur stofnun en sú sem nú starfar. Skólinn er ekki lengur rekinn af kirkjunni, heldur er hann sjálfseignastofnun og hefur sjálfstæða stjórn.
Sonur minn er nemandi í Landakotsskóla og líkar fjarskalega vel. Andrúmsloftið í skólanum er gott, það er meira að segja áberandi að börn sem hafa orðið fyrir einelti í öðrum skólum ná að dafna í Landakoti. Kannski er það vegna þess að nemendurnir koma úr ýmsum áttum, margir eru af erlendum uppruna. Námsárangur í skólanum er líka framúrskarandi – til dæmis sá maður nýlega að Landakotsskóli er 1,8 yfir landsmeðaltali í stærðfræði á samræmdu próf í tíunda bekk, 1,3 í íslensku en 0,9 í ensku.