Það er tilkynnt að Danir, Norðmenn og Svíar hyggist reka sameiginlegt sendiráð á Íslandi. Þetta þýðir að nokkrar af glæsilegustu villum bæjarins gætu losnað – um að gera að fara að safna.
En þetta er merkileg þróun. Bretar og Þjóðverjar reka reyndar sameiginlegt sendiráð hér í bæ – og í Berlín eru Íslendingar í samfloti með Norðurlandaþjóðunum.
Vís maður sagði að í nútímasamfélagi væru sendiráð álíka gagnleg og uxakerrur. Það er kannski aðeins ofmælt, en það er ekki vanþörf að vinda ofan af utanríkisþjónustunni. Hún hefur verið notuð í ýmiss konar tilgangi, það má minna á að einn utanríkisráðherrann sem sat í rúmt ár skipaði ellefu sendiherra.
Margt af því sem hún sinnir er eins hægt að gera í gegnum internetið. Það mun líka vera talsvert algengt að sendiráð eru fremur að þvælast fyrir en hitt, sendiherrar vilja hafa áhrif og setja upp verkefni – sem eru kannski þvert á það sem hefur verið ákveðið hér heima eða þykir skynsamlegt þar.
Eins og staðan er núna eru sendiráðin tvíþætt: Annars vegar sendiskrifstofurnar og svo hús fyrir sendiherra – þau eru oft mjög glæsileg, villur í fínustu og dýrustu hverfum.
Þetta er dálítið vel í lagt fyrir þrjú hundruð þúsund manna þjóð. Framtíðin hlýtur að vera að við fáum afnot af skrifstofum í sendiráðum hinna Norðurlandanna – og að selja glæsihús sendiherranna. Huggulegar litlar íbúðir ættu að vera nóg – og ef þarf að halda veislur eða mannfögnuði hlýtur að vera hægt að leigja þar til gerða sali.
Það hlýtur að vera lag nú þegar vinarþelið milli Norðurlandanna er svo mikið að Finnar og Svíar ætla að fara að passa loftrýmið í kringum Ísland.