Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur sendi þessa grein.
— — —
Hinn 23. nóvember 1982 eða fyrir 30 árum flutti Vilmundur Gylfason eina mögnuðustu þingræðu sem flutt hefur verið á lýðveldistímanum. Þetta er kröftug, ástríðufull og skemmtileg ræða þar sem íslensk stjórnkerfi er tekið á beinið. Þrátt fyrir gjörbreytt samfélag búum við í dag, árið 2012, við sama staðnaða stjórnkerfið og árið 1982. Vandamálin í dag eru í meginatriðum hin sömu og fyrir 30 árum og tillögur Vilmundar um leiðir til úrbóta eru enn í fullu gildi og sígildar.
Í ræðunni fjallar Vilmundur um flokksræðið gegn fólkinu í landinu. Stjórnkerfinu lýsir Vilmundur sem forspilltu og flokkakerfinu sem þröngri og lokaðri lágkúru. Valdakerfið í landinu, hin þröngu og lokuðu flokksvöld – hin fölsku völd – hafi brugðist fólkinu í landinu. Eignatilfærsla þess tíma sé vegna heimatilbúinnar kreppu hins ónýta stjórnkerfis. Hljómar nokkuð kunnuglega!
Vilmundur talar um nauðsyn á stjórnarskrárbreytingu og um stjórnskrárnefnd sem hafi starfað í 4 ár eða frá árinu 1978. Hann segir vinnu nefndarinnar litla og einskis virði, hún sé umskrift á nokkrum gömlum greinum stjórnarskrárinnar. Í stjórnarskrárnefndinni segir Vilmundur að sitji varðhundar valdsins, varðhundar hins þrönga flokksræðis sem hugsi um sjálfan sig og völd síns – völdin gegn fólkinu í landinu!
Vilmundur segir sig og væntanleg samtök sín, Bandalag jafnaðarmanna, vera með skýrar tillögur í kjördæma- og stjórnarskrármálum sem varla eigi enn hljómgrunn í hinu skelfilega Alþingishúsi. Þær muni hins vegar eiga fylgi að fagna hjá fólkinu í landinu takist að brjótast framhjá varðhundum valdsins. Vilmundur leggur til að forsætisráðherra verði kosinn beinni kosningu í tveimur umferðum og að landið verði eitt kjördæmi að því er taki til framkvæmdarvaldsins. Kjördæmaskipan verði hins vegar óbreytt að því er taki til löggjafarvaldsins, alþingismanna. Algerlega verði skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Hlutverk Alþingis verði að setja almennar leikreglur og hafa eftirlit með að þeim sé fylgt. Þessi leið feli í sér að flokksvöldin, völd nokkurra hundraða manna og kvenna í svokölluðum stjórnarmálaflokkum, verði brotin upp. Lýðræðið verði gert virkt og beint, en ekki þröngt og lágkúrulegt flokksræði. Flokksvöldin gegnsýri allt samfélagið og verndi aðstöðu sérhagsmuna.
Í ræðunni kemur Vilmundur með dæmisögu sem segi mikla pólitíska sögu og sýni hagsmunavörslu valdakerfis sem standi framförum og frelsi fyrir þrifum. Sagan er um hið rammfalska kerfi verkalýðsfélaganna og hagsmunabaráttu þeirra, þar sem starfsfólk þeirra, án þess að ætla nokkuð illt, séu ekki fulltrúar fyrir neinn nema sjálft sig og sína hagsmuni. Minnist Vilmundur hér einnig á að einn helsti verkalýðsleiðtogi þess tíma gangi ekki erinda síns fólks í vaxtamálum.
Alþingmenn segir Vilmundur í raun alla vera eins og þeir séu í raun ekki ósammála um neitt sem máli skiptir, munurinn sé aðeins sá að sumir séu ráðherrar en aðrir vilji verða ráðherrar. Vilmundur kemur með nokkrar sögur um hegðan hins samtryggða valdakerfisins, sem hann segir næfurþunnt og brothætt og samanstandi af nokkur hundruðum karla og kvenna. Þetta séu dæmisögur um aðferðirnar sem valdakerfið hafi til að halda uppreisnarmönnum niðri og gagnrýni úti. Vilmundur nefnir sem dæmi svörin sem hann fékk við fyrirspurn sinni til bankamálaráðherra um leiðréttingu vaxta sem átti að verða 1. mars 1980 samkvæmt lögum um vexti, svokölluð Ólafslög (lögin komu á verðtryggingu á Íslandi), en leiðréttingin hafði ekki verið gerð. Svör bankamálaráðherra við fyrirspurn Vilmundur um lögbrotið voru þau að fyrirspurnir væru hvimmleiðar og spiltu fyrir eðlilegum þingstörfum. Frétt RÚV um kvöldið um fyrirspurnina hafi síðan verið um að nauðsynlegt væri að endurskoða reglur um fyrirspurnir á Alþingi utan dagskrár. Svona dæmi segir Vilmundur að megi taka endalaust. Valdkerfið, með fullri þátttöku RÚV og flokksblaðanna, hæðist að allri gagnrýni og hún sé látin líta út sem gífuryrði og upphlaup. Vilmundur kallar Blaðamannafélag Íslands eina valddrusluna til. Hann segir hið þrönga flokksvald smjúga víða, m.a.s. á bókmenntasviðinu. Á Morgunblaðinu, hinu óupplýsta og þrönga flokksblaði, hafi verið ort hið fegursta ljóð sem Vilmundur flytur undir lok ræðu sinnar. Skáldið njóti hins vegar ekki sannmælis vegna stöðu sinnar. Athyglisvert er að í upphafi ræðunnar minnist Vilmundur á þunga undirstrauma í samfélaginu, hljóðláta og ákveðna uppreisn gegn hinu þrönga valdakerfi sem knýi á um breytingar.
Við að hlusta á ræðu Vilmundar vakna spurningar um hvort eitthvað hafi breyst í íslensku stjórnkerfi á þeim 30 árum frá því ræðan var flutt? Afhverju hefur ekki verið tekið á þeim stjórnkerfisvanda sem Vilmundur lýsir svo vel og kröftuglega í ræðu sinni? Kannski þurfum við að bíða í önnur 30 ár til að fá að heyra ræðu sem þessa á Alþingi.
— — —
Hér er ræða Vilmundar, í tveimur hlutum, hún var leikin í Krossgötum, útvarpsþætti Hjálmars Sveinssonar: