1926 kom Jón Leifs til Íslands með Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar. Þetta var stórviðburður – landsmenn höfðu aldrei heyrt slíkan tónlistarflutning áður. Hljómsveitin hélt nokkra tónleika í Reykjavík og var efnisskráin mismunandi á þeim, en meðal annars voru leikin verk eftir Mozart, Schubert, Wagner, Haydn og Jón sjálfan. Hann var hljómsveitarstjóri.
Þetta var mikið framtak hjá brautryðjandanum Jóni Leifs – en húsin sem sveitin spilaði í voru kannski ekki alveg þau bestu fyrir svona flutning, Dómkirkjan og Iðnó. Einnig voru haldnir tónleikar í Færeyjum – frá þeim viðburði segir í meistaraverki rithöfundarins Williams Heinesen, Glötuðum snillingum.
Á þessum árum var tónlistarlíf á Íslandi afar dauflegt, ekkert benti til þess að áratugum síðar yrði Ísland beinlínis þekkt fyrir blómlega tónlistarmenningu. Og nú höfum við eignast hús sem hæfir stórum sinfóníuhljómsveitum – það gerðist loks í hittifyrra.
Í kvöld spilar önnur þýsk sinfóníuhljómsveit á Íslandi, sjálf Berlínarfílharmónían. Hún er ein af allrabestu hljómsveitum í heimi, sumir mundu jafnvel segja sú besta. Saga hennar er afar glæsileg – stórmenni í tónlistinni hafa verið aðalstjórnendur hennar, Wilhelm Furtwängler og Herbert von Karajan. Nú er aðalhljómsveitarstjórinn Bretinn Sir Simon Rattle.
Þetta er einn stærsti viðburður í íslensku tónlistarlífi fyrr og síðar – aldrei hefur svo fræg hljómsveit leikið á Íslandi. Þetta hefði auðvitað ekki verið hægt ef ekki væri Harpa. Það verður afar forvitnilegt að heyra hvernig slík hljómsveit kemur út í húsinu. Og um leið má geta þess að tónleikunum verður útvarpað á Rás 1 í kvöld.
Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar sem kom í tónleikaferð til Íslands 1926, fremstur fyrir miðið er Jón Leifs.