Það er í raun ekkert fáránlegt að tala um Ísland sem Litla-Bretland. Mikið af menningu okkar, pólitík og viðskiptaháttum kemur þaðan.
Íslendingar skiptast í ættbálka eftir því með hvaða ensku fótboltaliðum þeir halda – það er spurt hvor menn séu Púlarar eða Unitedmenn – þetta er afskaplega tribal. Menning okkar er að miklu leyti komin frá Bretlandi, bókabúðir eru fullar af bókum sem eru þaðan, og áhrifin á poppmenningu og leikhús leyna sér ekki.
Pólitíkin hérna hefur lengi tekið mið af Bretlandi. Hérna upphófst ógurlegur átrúnaður á Margréti Thatcher – helstu valdamenn Íslands um langt skeið dáðu hana og dýrkuðu. Sósíaldemókratar tignuðu og tilbáðu Tony Blair meðan hann var og hét í Verkamannaflokknum. Á meðan ríkti – og ríkir kannski enn – algjört áhugaleysi á stjórnmálum í Evrópu og á Norðurlöndunum.
Evrópuandstaðan á Íslandi hefur löngum tekið mið af því sem tíðkast í Bretlandi. Hægri flokkar í Evrópu eru yfirleitt Evrópusinnaðir – en hér á Íslandi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið mjög undir áhrifum frá hinum evróskeptíska armi Íhaldsflokksins.
Íslenskir útrásarvíkingar störfuðu mikið í Bretlandi – og starfa enn. Björgólfur Thor og Jón Ásgeir eru skilgetin afkvæmi spilavítishugsunarháttarins sem hefur lengi einkennt breskt viðskiptalíf. Jón Ásgeir á stærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi – og er aftur að seilast til áhrifa í verslun. Björgólfur á meðal annars símafyrirtæki sem fer stöðugt stækkandi.
Mörgum hefur orðið tíðrætt um að eftir hrun skyldu Íslendingar horfa meira til Norðurlandanna – þar sem er stöðugasta stjórnarfar í heimi og mest velmegun. Liðinn væri tíminn þegar við teldum okkur ekkert geta lært neitt af Norðurlöndunum. Það er þó spurning hvort áhuginn á frændþjóðunum hafi nokkuð vaxið.