Sighvatur Björgvinsson skrifar nýja grein um sjálfhverfu kynslóðina í Fréttablaðið í dag. Síðasta grein Sighvats var svo kröftug að við lá að brytist út kynslóðastríð á Íslandi.
Sighvatur er að skrifa um kynslóð sem steypti sér í skuldir og vill nú losna undan þeim – meðal annars á kostnað hans sjálfs og kynslóðar hans.
Sjálfur tilheyrir Sighvatur reyndar þeirri kynslóð sem stundum hefur verið kennd við Drakúla. Hér er fróðleg grein um hana sem Gunnar Smári Egilsson skrifaði í Pressuna árið 1990.
Drakúlakynslóðin er í stuttu máli fólkið sem eignaðist húsnæði á verðbólgutímanum, sölsaði undir sig sparifé kynslóðarinnar sem kom á undan og lét kynslóðina sem kom á eftir borga skuldirnar fyrir sig.
Fyrir það var byggt upp lífeyriskerfi sem tryggir því góða framfærslu – ljóst er að seinni kynslóðir munu ekki njóta slíkra kjara. Það vantar mikið upp á að lífeyrissjóðirnir standi undir því, til dæmis er stórt gat í lífeyrissjóði ríkisins.
Þessir kynslóðareikningar geta verið ágætir fyrir sinn hatt. Við virðumst standa frammi fyrir þeim veruleika að upp eru að rísa á Vesturlöndum kynslóðir sem munu hafa það verra en foreldrar þeirra, afar og ömmur. Það verður minni atvinna, launin verða lélegri, það verður erfiðara að eignast húsnæði. Svona lítur staðan altént út núna.
En svo má líka segja að kynslóðareikningar séu fáránlegir. Innan hverrar kynslóðar er fólk sem flýtur ofan á og aðrir sem hafa það skítt. Ójöfnuðurinn hefur verið að aukast á Vesturlöndum samhliða vaxandi auðræði og valdatöku fjármagnsafla.