Nýjar bækur streyma á markaðinn, Kiljan ber merki þess.
Í þættinum á miðvikudagskvöld förum við með Stefáni Mána upp í Kollafjörð, þar er eyðilegt hús sem varð kveikjan að nýjustu skáldsögu hans, hrollvekju sem nefnist einfaldlega Húsið.
Auður Jónsdóttir kemur í þáttinn og segir frá nýjustu bók sinni sem nefnist Ósjálfrátt. Þetta er skáldsaga með sjálfævisögulegu ívafi, fjallar um stúlku sem giftist sér miklu eldri manni, drykkfeldum og ómögulegum, og konur í fjölskyldunni sem reyna að koma henni burt úr hjónabandinu.
Þórarinn Eldjárn segir frá skáldsögunni Hér liggur skáld, bókin er bráðskemmtileg útlistun á Svarfdælasögu og Þorleifs þætti jarlaskálds.
Við gluggum líka aðeins í Söguna af klaustrinu á Skriðu. Það er frásögn af fornleifauppgreftrinum á Skriðuklaustri, skrásett af Steinunni Kristjánsdóttur. Þarna var grafið upp heilt klaustur, meðal þess sem kom í ljós var kirkjugarður, en í klaustrinu var starfræktur spítali. Beinagrindur sem þar lágu voru sjúkdómsgreindar og eru niðurstöðurnar mjög forvitnilegar. Við fáum þó aðeins nasasjónir af þessu efni – því verða gerð betri skil í ítarlegri umfjöllun eftir jól.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason, Boxarann eftir Úlfar Þormóðsson og Stuð vors lands eftir Dr. Gunna.
Bragi er svo auðvitað á sínum stað.