Kristinn Már Ársælsson úr Lýðræðisfélaginu Öldu var í viðtali í Silfri Egils í gær. Hann sagði margt athyglisvert um nauðsyn þess að efla og dýpka lýðræði á tíma þegar traust á hefðbundnum stjórnmálum er í lágmarki og fjármagnsöfl eru mjög frek til fjörsins.
Eitt atriði sem má kannski sérstaklega nefna úr viðtalinu eru orð Kristins um mikilvægi þess að sannreyna hluti sem koma fram í opinberri umræðu í stað þess að umræðan snúist alltaf um að A segi einn hlut og B komi með fullyrðingu á móti. Slíkt staðreyndatékk hefur færst í aukana víða erlendis, meðal annars var það áberandi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum – þar voru kappræður forsetaframbjóðendanna yfirfarnar með tilliti til rangfærslna strax eftir að þeim lauk.
Hér á Íslandi hefur þetta sárlega vantað – það er eins og við lifum í stjórnmálaveruleika þar sem hægt er að teygja og toga sannleikann. Til dæmis virðist endalaust vera hægt að rífast um skattahækkanir – hvenær þær eru raunverulegar og hvenær ekki. Í því tilliti urðu náttúrlega ákveðin þáttaskil þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður –niðurlagning hennar var náttúrlega af ásettu ráði, markmið þáverandi stjórnarherra var að geta sjálfir skammtað opinberan sannleika í lýðinn.
En hér er viðtalið við Kristin: