Hvað sem líður stjórnarskrármálum – allt það ferli er ekki hafið yfir gagnrýni – þá hefur verið mjög rík krafa í samfélaginu undanfarin ár um beinna lýðræði og persónukjör.
Þetta er reyndar ekki sér-íslenskt fyrirbæri – slíkar hugmyndir eru mjög á döfinni víða um heim.
Það er misskilningur að halda að þetta komi einungis frá vinstri væng, Styrmir Gunnarsson er einn þeirra sem hefur talað lengst fyrir beinu lýðræði á Íslandi.
Atkvæðagreiðslurnar tvær um Icesave voru náttúrlega dæmi um beint lýðræði í praxís – það sem var kannski minna lýðræðislegt við þær var að það hvort þær yrðu yfirleitt haldnar var háð duttlungum eins manns, forseta Íslands. Samkvæmt nýjum stjórnarskrárdrögum á ákveðin hlutfallstala kjósenda að geta krafist þjóðaratkvæðis. Það fyrirkomulag býður náttúrlega upp á meira samræmi – þjóðaraatkvæðagreiðslur fara þá ekki bara eftir því hvernig stendur í bólið hjá forseta. Næst gætum við til dæmis fengið forseta sem vill engar þjóðaratkvæðagreiðslur.
Í gær var haldinn í Háskólanum fundur um stjórnarskrármál. Þar kom í ljós að tveir af helstu stjórnmálafræðiprófessorum Íslands er mikið á móti beinu lýðræði – og í raun einnig auknu persónukjöri sem líka hefur verið krafa um. Persónukjörið er viðleitni til að losa um þau ógurlegu flokksbönd sem tíðkast á Íslandi.
En prófessorarnir eru alveg á móti þessu. Það er eins og þeir séu búnir að rýna svo mikið í gamla kerfið að þeir séu orðnir partur af því.