Býsna er það skuggalegt ef fjárfestingasjóðir eru að kaupa íbúðir í miðborg Reykjavíkur í stórum stíl – og nota jafnvel til þess aflandskrónur á afsláttarkjörum.
Á Vísi segir að fjárfestingasjóður á vegum félags sem heitir Gamma hafi að undanförnu keypt hundrað íbúðir í miðbænum og varið til þess fjórum milljörðum króna. Íbúðirnar eru keyptar til að selja þær þegar verðið verður orðið enn hærra.
Þetta þýðir náttúrlega að verðmyndun á markaðnum verður óeðlileg og enn erfiðara verður fyrir ungt fólk að komast inn á hann. Íbúðaverð á þessu svæði er þegar of hátt miðað við launatekjurnar – í þessari frétt á Mbl.is segir að það sé ekki nema ögn lægra en þegar það var hæst árið 2008.
Það getur varla verið eðlilegt í landi þar sem lánsfé er naumt skammtað og fæstir eiga neinar fjárhæðir að ráði til að setja sem innborgun í húsnæði.