Djöflaeyja Friðriks Þórs Friðrikssonar var í sjónarpinu í gærkvöldi. Það er fín mynd – og hún eldist vel. Þetta var stór pródúksjón, eins og sést á útliti myndarinnar. Það var reist heilt braggahverfi vestur í Gróttu – upphaflegu sögurnar. Braggahverfið sem fjallað er um í myndinni var á Grímstaðaholti, þar bjó Jósefína Nauthól og maður hennar Dóri fisksali.
Sjálfur man ég ekki eftir þessu hverfi, mig rétt rámar í braggahverfið sem var á Melunum, þar sem nú stendur lítil verslunarmiðstöð sem hýsir meðal annars Ísbúð Vesturbæjar. Annað stórt braggahverfi var á Skólavörðuholti, en það var fyrir mína tíð.
Djöflaeyjarbækur Einars Kárasonar – sem Friðrik byggir myndina á – eru löngu orðnar kolsígildar. Þær eru að hluta til byggðar á frásögnum Þórarins Óskars Þórarinssonar, Agga, en hann er lítil drengur í myndinni. Ég kynntist Agga þegar ég var barn, hann var nokkrum árum eldri en ég, ógurlegur töffari og sögumaður.
Aggi er ljósmyndari – í bókabúðinni hjá Braga Kristjónssyni má til dæmis sjá ljósmyndir eftir hann af Jósefínu, ömmu hans, og af Bóbó á Holtinu, sem er fyrirmyndin af Badda í myndinni.
Bóbó, þessi sérlega laglegi maður, endaði sem strætisróni. Ég man þegar ég sá hann í síðasta skipti. Þá var ég staddur að morgni dags í Hagkaupsverslun á Eiðistorgi. Bóbó kom þar inn ásamt nokkrum félögum sínum, þeir voru heldur slæptir að sjá. Ég fylgdist með álengdar og sá að þeir hrúguðu kardimommudropaglösum í innkaupakörfu og tóku svo tveggja lítra flösku af Seven-Up. Borguðu við kassann og hurfu svo á braut.
Nokkru síðar frétti ég af andláti Bóbós.
Fjölskyldumynd: Bóbó með Agga systurson sinn.