Eins og áður er komið fram fjöllum við um bókina Ariasman eftir Tapio Koivukari í Kiljunni í kvöld. Þetta er söguleg skáldsaga sem fjallar um Spánverjavígin á Vestfjörðum 1615.
Við ræðum við Eirík Örn Norðdahl rithöfund um stóra skáldsögu eftir hann sem nefnist Illska. Bókin fékk feikigóða dóma í Kiljunni fyrir tveimur vikum.
Gerður Kristný er gestur í þættinum, eftir hana er nýútkomin ljóðabók sem nefnist Strandir. Síðasta ljóðabók Gerðar, Blóðhófnir, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær nýjar bækur: Landvættir eftir Ófeig Sigurðsson og Rof eftir Ragnar Jónasson.
En Bragi sýnir okkur frumútgáfur af bókum eftir Elías Mar.
Blaðsíða úr tímaritinu Líf og list frá 1950. Við nefnum þessa fallegu teikningu af Elíasi Mar í þættinum í kvöld, hún er eftir Sverri Haraldsson. Elías var mjög afkastamikill á þessum árum, en hann hætti nánast að gefa út þegar afar neikvæður ritdómur birtist um hann í Þjóðviljanum.