Tapio Koivukari er finnskur maður, ættaður frá Rauma. Hann bjó lengi á Íslandi, starfaði meðal annars sem smíðakennari á Ísafirði, er giftur íslenskri konu, henni Huldu, og hann talar íslensku nánast óaðfinnananlega. Tapio er rithöfundur, hann hefur skrifað trílógíu sem gerist í heimahéraði hans í Finnlandi, en svo sneri hann sér að því að skrifa bók um atburð sem honum var hugleikinn – Spánverjavígin á Íslandi.
Bókin er nú komin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar. Hún nefnist Ariasman, en það er nafnið sem basknesku hvalveiðimennirnir gáfu Ara ríka í Ögri, helsta höfðingja Vestfjarða á tíma atburðanna sem bókin fjallar um. Þarna hjuggu íslenskir bændur, undir forystu Ara, 31 baskneskan skipbrotsmann bókstaflega í spað. Þessi fjöldamorð voru vissulega mikið óhæfuverk – og þau eiga varla sinn líka í Íslandssögunni.
Spánverjavígin hafa þannig löngum verið ráðgáta, en Tapio reynir að nálgast þau í formi sögulegrar skáldsögu þar sem atburðum er lýst bæði frá sjónarhóli Íslendinga og Baskanna sem komu hingað til að veiða hval.
Tapio Koivukari verður gestur í Kiljunni á miðvikudagskvöld.
Mynd er sýnir hvalveiðar við Íslandsstrendur. Baskar voru mestu hvalveiðimenn í heimi, þeir sóttu meðal annars til Nýfundnalands, Labrador og Íslands. Hvalveiðimennirnir sem voru vegnir 1615 voru skipbrotsmenn úr flota þriggja skipa sem höfðu aðsetur í Reykjarfirði á Ströndum.