Norodom Sihanouk, prins í Kambódíu, sem nú er látinn, 89 ára að aldri, var einn af þeim mönnum sem var alltaf í fréttum þegar ég var strákur.
Þetta var tími Vietnamstríðsins – upplausnin í Indókína leiddi miklar hörmungar yfir allt svæðið. Bandaríkjamenn fóru að hella sprengjum á Kambódíu til að koma í veg fyrir liðsflutninga Norður-Vietnama og Viet Cong skæruliðanna, það braust út borgarastyrjöld í landinu sem lauk með sigri Rauðu Khmeranna og skelfilegri ógnarstjórn þeirra.
Einhvern veginn lifði Sihanouk í gegnum þessa atburði – hann var stundum kóngur, stundum ekki, stundum forsætisráðherra, hann var leiðtogi útlagastjórna, um tíma var hann leppur fyrir Rauðu Khmeranna, en var í raun fangi og tókst að flýja burt.
Eftir fall þeirra varð hann aftur kóngur, það var á árunum 1993 til 2004 – en þá var hann aðeins táknræn fígúra.
Ég get ekki sagt að ég skilji alla þessa sögu. Það sem er eftirminnilegast er hið óræða bros sem alltaf lék um varir Sihanouks. Manni skilst líka af fréttum að íbúar Kambódíu syrgi þennan gamla leiðtoga sinn, þótt ferill hans hafi verið ansi brokkgengur.
En ég hef pínulítil tengsl við Sihanouk. Vinkona mín frönsk er dóttir fyrrverandi landstjóra Frakka í Kambódíu. Þar ólst hún upp, þetta var fyrir löngu, á nýlendutímanum. Og þá þekkti hún ungan prins sem líklega hefur verið fáum árum eldri en hún – það var Sihanouk.
Sihanouk þegar hann var ungur kóngur.