fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Guðni Th: Þrjóskar staðreyndir um stjórnarskrána

Egill Helgason
Fimmtudaginn 18. október 2012 08:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson flutti stórmerkilegan fyrirlestur á fundi hjá Stjórnarskrárfélaginu í Iðnó í gærkvöldi. Þar tók Guðni af öll tvímæli um að stjórnarskráin sem var samþykkt 1944 hefði verið til bráðabirgða. Ég leyfi mér að birta nokkra búta úr fyrirlestri Guðna sem nefndist Þrjóskar staðreyndir um stjórnarskrána, hann má finna í fullri lengd á heimasíðu Guðna.

— — —

Fyrst víkur hann að því hvernig stjórnmálamenn og fleiri reyna að túlka söguna í áróðursskyni. Við höfum séð mikið af slíku undanfarin ár:

„Í rannsóknum á sögunni þykir það einatt til fyrirmyndar að stefna að hlutlægni, líta á atburði og einstaklinga frá ólíkum sjónarhólum og forðast þá freistingu að draga aðeins það fram sem styður manns eigin kenningar en gera lítið úr hinu. Þetta getur verið erfitt. Jafnframt er enginn dómari í eigin sök og öll erum við börn okkar tíma. Umhverfið hefur áhrif á skoðanir okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Skoðanir um liðna tíð verða aldrei eins og niðurstöður flestra raunvísindalegra tilrauna, óháðar tíma og rúmi. Samt má afstæðishyggjan aldrei verða alger því að þá getur hver sem er haldið fram hverju sem er. Sumt ætti ekki að þurfa að deila um.

Allt það sem hér hefur verið rakið má hafa í huga þegar sögunni víkur að efni þessa erindis, aðdraganda lýðveldisstjórnarskráarinnar. Auðvitað verður aðeins hægt að stikla á stóru en fyrst má minnast á þær fullyrðingar í umræðum líðandi stundar að ekki hafi verið fastmælum bundið að taka stjórnarskrána til gagngerðrar endurskoðunar, enda hafi þjóðin stutt hana einum rómi árið 1944. Þar að auki hefur verið sagt ástæðulaust að umbylta lýðveldisstjórnarskránni því að hún sé „svo listilega smíðuð“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst að orði, og „helgur gerningur“, svo vitnað sé til orða höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.“

— — —

Svo heldur Guðni áfram og birtir ýmsar tilvitnanir, máli sínu til stuðnings:

„Allt ber að sama brunni: Í bígerð var millileikur, tímabundin breyting á stjórnarskrá uns næði gæfist til gagngerðrar endurskoðunar. Heimildir um umræður utan þings styðja þetta sjónarmið og ekki síður ummæli á Alþingi þegar rætt var um hina væntanlega lýðvelidstjórnarskrá fyrri hluta árs 1944. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi:

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf..

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „… er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „… nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. … Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 – að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

Áhersla á einingu og ágreiningi frestað: Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku. Einn þeirra sem man þessa daga skrifaði nýlega á þessa leið:

„En í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í maí 1944 man ég ekki eftir því að nokkur maður minntist á stjórnarskrána og atkvæðagreiðsluna um hana. Það var lýðveldisstofnunin og endanlegu slitin við Dani sem á hverjum manni brann. Ég tel enda fullvíst að þorri manna hafi ekki haft hugmynd um hvað stóð í þessu plaggi sem nefndist stjórnarskrá en að sjálfsögðu sögðu flestir já við upptöku hennar, fannst það vera liður í þessu dýrðlega ferli; að losna endanlega við gömlu herraþjóðina og danska kónginn.„“

— — —

Svo fóru menn að verða langeygir eftir stjórnarskrá, meðal þeirra var sjálfur forseti Íslands, Sveinn Björnsson:

„En svo leið hin nána framtíð. Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson forseti undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða:

„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.““

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!