Forysta Sjálfstæðisflokksins mun hafa átt í talsverðum erfiðleikum með hvaða afstöðu hún ætlaði að taka til þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardag.
Í fyrstu hallaðist hún helst að því að láta þau boð út ganga til flokksmanna að sniðganga atkvæðagreiðsluna. Það hefði verið vandræðaleg staða, það er varla gott að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hvetji fólk til að taka ekki þátt í kosningum – og þá hefði auðvitað verið líklegra að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu samþykktar með miklum mun.
Nú er afstaða flokksforystunnar sú að hvetja Sjálfstæðismenn að mæta á kjörstað og segja nei við tillögunum – þessu „fúski“ eins og segir í bréfi Bjarna Benediktssonar til flokksmanna.
Þetta gæti haft nokkur áhrif á kjörsóknina – hún gæti jafnvel farið upp í 40-50 prósent – og það gefur kosningunum sem slíkum aukið gildi. En svo er spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé nógu sterkur til að fella tillögurnar?