Guðbergur Bergsson verður gestur í Kiljunni á miðvikudagskvöld. Það er mikið á seyði hjá Guðbergi þessa dagana, hann er áttræður í dag, nýlega er komin út endurútgáfa á Tómasi Jónssyni metsölubók í flokknum Íslensk klassík – og í dag birtist ný skáldsaga eftir hann sem nefnist Hin eilífa þrá.
Annar gestur í þættinum er Elena Poniatowska. Þessi aldraða kona er einn frægasti rithöfundur Mexíkó, en líka afkastamikill blaðamaður. Hún er upprunalega af pólskum aðalsættum, en flutti til Mexíkó sem barn. Þetta er stórbrotin kona – sem hefur átt mjög merkilega ævi. Nýlega er komin út skáldsaga eftir hana á íslensku, en hún nefnist Jesúsa.
Steindór Andersen kvæðamaður og Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld koma í þáttinn og flytja stemmur af nýjum og glæsilegum hljómdiski sem nefnist Stafnbúi.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær skáldsögur, Málarann eftir Ólaf Gunnarsson og Siglinguna um síkin eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur.
En Bragi er á sínum stað, í lok þáttar.