fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Stjórn og stjórnleysi í mótmælaaðgerðum

Egill Helgason
Mánudaginn 15. október 2012 21:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég bý niðri í Miðbæ og þess vegna gat ég fylgst vel með mótmælum hrunveturinn 2008-2009 – og líka mótmælum sem voru í kringum þingsetningu 2009 og 2010.

Ég fór mikið út á þessum tíma og talaði við mótmælendur. Eitt sinn fór ég meira að segja út um nótt, það var þegar mótmælin bárust að Stjórnarráðinu. Þá var áberandi mikið af ungu fólki á ferðinni, sumt var í miklum ham. Ég talaði við suma og bað þá að róa sig og fara heim. Þetta var kvöldið þegar hópur mótmælenda tók sér stöðu fyrir framan lögregluna – til að verja hana.

Aldrei varð ég var við að neitt sérstakt skipulag væri á þessum mótmælum, umfram það að Hörður Torfason var með ræðupall og hljóðnema. Það sauð vissulega upp úr nokkru sinnum. En það gerist í mótmælaaðgerðum af þessu tagi alls staðar í heiminum? Missa mótmæli í Aþenu og Madrid gildi sitt vegna þess að einhverjir hópar vilja slást við lögregluna?

Þetta var eins hér – það voru hópar fólks sem vildu fæting. Það var enginn að stjórna þeim – þetta var þvert á móti einhvers konar stjórnleysi, ungt fólk sem missti stjórn á sér. Lögreglan tók á móti – mér sýndist yfirleitt að framkoma hennar væri til sóma þessa daga.

Það gerðist svo í október 2010 að geysifjölmenn mótmæli voru við Alþingishúsið. En þá var komin önnur ríkisstjórn – og þá var farið að ala á þeim sögum að mótmælin hefðu verið skipulögð af Sjálfstæðisflokknum. Það hefðu aðallega verið jeppamenn sem mættu í mótmælin. Alþingishúsið var grýtt og það var mikil reiði í fólki.

En auðvitað voru það ekki Sjálfstæðismenn sem skipulögðu þetta, ekki fremur en Vinstri grænir skipulögðu „aðför“ að Alþingishúsinu árið áður. Mótmælendur voru mestanpart venjulegt fólk sem vaknaði upp við vondan draum – kjör þess höfðu snarversnað og hugmyndir sem það hafði trúað á höfðu reynst vera blekking. Efnahagshrunið sem hér varð er eitt það versta í sögu Vesturlanda – og við erum langt í frá búin að bíta úr nálinni með það.

Raunar rifjast upp fyrir mér mótmæli tíu árum áður. Þá kom til blóðugra átaka milli mótmælenda og lögreglu í borgum eins og Seattle, Gautaborg og Róm. Tilefnið var hnattvæðingin – á þessum tíma reis öflug mótmælahreyfing gegn henni. Nú finnst manni eins og margir sem þá létu sér fátt um finnast eigi ágætlega heima í þeirri hreyfingu – líka þeir sem eru á hægri væng stjórnmálanna.

Frá mótmælunum miklu gegn hnattvæðingu á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle 1999. Þeim hefur fjölgað sem eru hallir undir málstað mótmælendanna frá þessum árum – ekki síst á hægri vængnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!