Ég hef tekið viðtöl við margt eftirminnilegt fólk.
Ef ég ætti að velja úr myndi ég líklega nefna fjóra einstaklinga:
Simon Wiesenthal, Noam Chomsky, Ayaan Hirsi Ali og Michel Rocard.
Wiesenthal hitti ég í Vínarborg fyrir tuttugu og fimm árum, það viðtal birtist í Helgarpóstinum, Chomsky var í Silfrinu í fyrra, Hirsi Ali var i Kiljunni fyrir nokkrum árum.
Ég tók viðtal við Michel Rocard í Silfrinu í hittifyrra – hann er aftur gestur hjá mér á morgun.
Í Frakklandi er talað um grands hommes, mikla menn. Ég hef ekki neinar efasemdir um að Rocard sé einn slíkur.
Hann er fæddur 1930, sonur eðlisfræðingsins Yves Rocard, sem er einn þeim smíðuðu fyrst kjarnorkusprengjur fyrir Frakka. Hann hefur verið áhrifamaður í röðum franskra sósíalista í meira en fimmtíu ár. Hann var forsætisráðherra frá 1988 til 1991, en Mitterrand forseti hafði alltaf horn í síðu hans. Rocard var vinsæll, hann var þekktur fyrir að segja hlutina eins og þeir voru – það var ekki sterkasta hlið Mitterrands – og hann var hallari undir markaðshagkerfi en forsetinn og menn hans.
Ríkisstjórn Rocards þótti mjög dugmikil og umbótasinnuð – hún kom mjög miklu í verk, efnahagurinn batnaði og atvinnuleysi minnkaði. Mitterrand leist ekki á blikuna og þvingaði hann til að segja af sér. Margir halda því fram að Rocard hefði átt að verða forseti – í staðinn hékk Mitterrand á embættinu alltof lengi, síðustu árin var hann mjög sjúkur, því var haldið leyndu að hann væri með krabbamein.
Rocard er ærlegri maður, hreinskilnari og meiri hugsuður en Mitterrand – en Mitterrand var miklu klókari stjórnmálamaður. Því miður verða slíkir menn oft ofan á í stjórnmálum.Það var frægt þegar Rocard sagði eftir andlát Mitterrands: „Hann var ekki heiðarlegur maður.“
Rocard er nú 82 ára. Hann er sérlegur sendiherra frönsku stjórnarinnar og fer með málefni heimskautanna. Þess vegna kemur hann til Íslands. Hann er furðu sprækur í andanum – og það er unun að hlusta á greiningar hans á alþjóðastjórnmálum.
Eins og fyrr segir verður hann í Silfrinu á morgun, í viðtali um heimskautin og heimspólitíkina.